Jörð, himinn, haf, eldur, ís. Þetta eru orð yfir náttúrfyrirbæri sem umvefja okkur, þótt nútíminn hafi að einhverju leyti fjarlægt okkur frá þessum meginöflum sem skapa tilvist okkar. Hið tæknivædda samfélag rembist við að fóðra veröld okkar frá óvægnum náttúrukröftum en rekur sig sífellt á vanmátt okkar andspænis náttúrunni. Manneskjunni hafa löngum verið hugleikin óútskýrð fyrirbæri náttúrunnar sem oft eru sett undir hatt hins yfirnáttúrlega. Þar mætast trú okkar, hneigð til almættis sem við verðum að lúta, og frelsi okkar til að vera, vera manneskja sem er eigin skapandi náttúra. Í málverkum Guðmundu er sterk tenging við óbeislaða náttúru, þau náttúruöfl sem okkur Íslendingum eru svo hugleikin, þar sem frumkraftar takast á. Umbrot og óstöðugleiki, djörf litabeiting í bland við ábúðarmikla áferð skapa málverk sem kalla fram í hugann hraun, eldgos, jökla, grimmt hafið eða þrumandi himin. En það er ekki bara hið stórskorna í náttúrunni sem áhorfandinn mætir, heldur einnig hið smágerða. Sýn Guðmundu er rómantísk í anda þess sem Robert Rosenblum vísar til í bók sinni Modern Painting and the Northern Romantic Tradition sem setur í brennidepil stökkið milli hins óendanlega smáa til hin óendanlega stóra, frá míkrókosmos til makrókosmos.

Þessi sýn felur í sér að hið guðlega, skaparinn, birtist sem hluti af veröld okkar fremur en handan hennar, sú sýn að náttúruöflin séu guðlegur kraftur. Þessi hugmynd ber með sér afstöðu sem er að nokkru leyti heiðin, eins og Rosenblum bendir á, og á sér sérstaklega sterkar rætur á norðurslóðum, eins og skýrt kemur fram í ásatrú norænna manna. Málarinn sem nálgast sína iðju frá þessu sjónarmiði er catalysti, hann lætur listaverkið leiða sig í óvissu eigin athafna, endalausu ævintýri sem skapast á hverju augnabliki gjörða hans. Það sem birtist á léreftinu eru átök málarans við sjálfan sig og hliðstæða sífelldra átaka náttúraflanna. Þannig verður málverkið einkonar minni útgáfa hinnar síkviku náttúru sem við lifum með og í. Efnisnotkun Guðmundu er áhugaverð fyrir frumlega útfærslu óvanalegra efna sem blandað er í olíulitinn, allt frá ösku til pappírs. Þetta opnar nýja vídd til túlkunar verkanna þar sem þessi aðskotaefni hlaðast merkingu um leið og þau skapa ótrúlega margslungna áferð. Þótt náttúran sé alltumlykjandi í málverkum Guðmundu er þar ekki um að ræða landslagsmálverk, heldur verk sem krefjast sjálfstæðrar tilvistar án þessa að falla í grýfju sýndarleiks eða eftirmyndagerðar. Þetta eru umbúðalaus, kröftug verk sem krefjast þess sama af áhorfandanum.

Nám

Myndmenntakennari frá Myndlista- og Handíðaskóla Íslands
2003-2004, Myndlistaskóli Reykjavíkur
frá 2004, Myndlistaskóli Kópavogs
2005 júní, Engelsholm kunsthøjskole í Danmörku
2006 júní, Vraa højskole í Danmörku
2007, Myndlistarskóli Kópavogs Masterclass-tilraunastofa
2007 júní, Holbæk Kusthøjskole í Danmörku
2008, Myndlistarskóli Kópavogs Málstofa-Listasaga
2009 Myndlistarskóli Kópavogs Málstofa-Listasaga
2010 Serhiy Savchenko, Master class
2013 Serhiy Savchenko, Master class
2014 Serhiy Savchenko, námskeið.
2015 Serhiy Savchenko, Vasyl Savchenko, Edouard Belsky, Grafíknámskeið í Sloveníu.

Vinnustofa

ART 11 Auðbrekku 4, Kópavogi
Félag: SÍM Samband íslenskra myndlistarmanna
Félagi í Anarkíu sýningarsal frá júní 2014